Stúdentamót á Egilsstöðum 13-15. nóvember
Dagana 13-15. nóvember nk. verður haldið stúdentamót KSF í Kirkjumiðstöð Austurlands á Eiðum. Kirkjumálasjóður styrkti verkefnið sem gerir okkur kleift að halda mót svo fjarri höfuðborgarsvæðinu.
Hluti af mótinu fer fram í kirkjumiðstöðinni en hluti verður inni á Egilsstöðum. Dagskrá verður birt þegar nær dregur, en hún verður ekki af verri endanum.
Mótsgjald er 5000 kr sem greiðast við upphaf mótsins.
FERÐASTYRKUR:
Vegna þess að Kirkjumálasjóður styrkti verkefnið verður hægt að greiða ferðastyrk þar sem ferðakostnaður verður eðli málsins samkvæmt nokkur. Einungis skráðir félagsmenn í KSF fá ferðastyrk sem verður amk 10.000 kr á mann (þó ekki meira en 100% af ferðakostnaði).
Vegna skipulagningar við mótið hefur verið sett takmörkun á fjölda og þannig 20 manns sem komast á mótið með ferðastyrk. Gildir þar reglan: Fyrstur kemur – fyrstur fær og er því ekki seinna vænna að skrá sig í gegnum netfangið gudmundur (hjá) ksf.is.
Þegar þetta er ritað kostar flugfar með Flugfélagi Íslands fram og til baka rétt tæpar 10.000 kr og viljum við því hvetja sem flesta til þess að kaupa flugmiða sem fyrst. Með því móti verður hugsanlega hægt að greiða fleirum ferðastyrki en 20 manns. Dagskrá mótsins lýkur kl. 13:15 á sunnudeginum og því er ekki gert ráð fyrir að mótsgestir fljúgi heim fyrr en í fyrsta lagi kl. 14:10. Við reiknum með að vera með bíla á svæðinu en ferðin frá Eiðum og inn á Egilsstaði tekur um 15 mínútur. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að komast frá Eiðum inn á Egilsstaði á sunnudagsmorgni fyrir kl. 13:15.
Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við stjórn KSF fyrir frekari upplýsingar.